Eins og Reykjavík

Þann 1. október fór þriðja Lestrarhátíð í Bókmenntaborg af stað og er haldið úti allan mánuðinn með fjölbreyttri og lifandi dagskrá. Hátíðin í ár nefnist Tími fyrir sögu og er hún tileinkuð smásögum og örsögum og þeirri list að skrifa sögur. eBækur.is er stoltur samstarfsaðili Lestrarhátíðar og hefur verið frá upphafi.

Í tilefni hátíðarinnar kemur út nýtt smásagnasafn Eins og Reykjavík en í því eru 26 sögur eftir ólíka höfunda sem allar tengjast Reykjavík á einhvern hátt og valdar hafa verið af Þórarni Eldjárn. Eins og Reykjavík er gefið út af eBókum og fæst hér.

Markmið Lestrarhátíðar er að hvetja til lesturs, auka líflega umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi.

Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðinni með því að mæta á viðburði, halda sjálfir viðburði, nota myllumerkið (hashtag) #lestrarhatid14,setja inn örsögur, uppáhalds tilvitnanir  ljóðlínur eða mínútumyndir á samfélagsvefina Facebook, Twitter og Instagram. Úrval þess efnis verður síðan birt á vef Bókmenntaborgarinnar, bokmenntaborgin.is.